þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Brauðið hennar mömmu

Hér kemur gamla hveitibrauðið hennar mömmu:
5 bollar hveiti eða hveiti og heilhveiti,
5 tsk lyftiduft,
1 kúfuð msk sykur,
1 tsk salt,
mjólk eftir þörfum má vera súrmjólk.
Ekki spillir ef þú getur útvegað þér kúmen, setja þá svona 1 kúfaða matskeið.
Mér finnst best að baka brauðið sem hnoðað og sem hleif, en það má alveg eins baka það i formi..... Þessa uppskrifrt má líka nota í hveitkökur, eins og mamma gerði:) Passa að hnoða eða hræra sem minnst, annars verður brauðið seigt.

Njótið

föstudagur, janúar 01, 2010

Humarsúpa creamie

Þessa hef ég alltaf i forrétt á áramótum.

1 kg humarhalar - mega vera litlir.
10 gulrætur rifnar niður
10 hvítlauksrif
1 stór laukur smátt saxaður
200 gr smjör
1 líter rjómi
steinselja
paprika
2 dósir tómatpúrre
3 fisksoðteningar
2 msk hummerfest
hvítvíns 1/2 desilíter
koníak 1/2 desilíter
svartur nýmulinn pipar eftir þörfum

Ég set 1.5 lítra af vatni og læt suðuna koma upp á humrinum. brýt svo skelina og hreinsa fiskinn úr. Set svo aftur skeljarnar út í soðið og læt malla í 1-2 klst. Þá eru skeljarnar síaðar frá og soðið notað sem grunnur í súpuna.
Gulræturnar rifnar út í soðið og látið sjóða upp. Öllu kryddinu ásamt lauk og smjöri er blandað út í og látið sjóða með. Humrinum og rjómanum bætt út í og látið sjóða upp. Tómatpúrrunni bætt við og suðan látin koma upp. Bragðbætt með hummerfest og hvítvíni.
Í restina er koníakinu bætt við og ekki látið sjóða eftir það.
Borið fram með þeyttum rjóma.
Þetta finnst mínu fólki lostæti.

Verði ykkur að góðu sem prófið.

sunnudagur, maí 17, 2009

Créme brulée (Erlu uppskrift)

6 eggjarauður og einn bolli sykur pískað saman. Hálfur lítri rjómi og ein vanillustöng (skafið innan úr henni) blandað saman og hitað upp að suðu. Þessu hellt varlega saman við eggjablönduna og sett í litlar skálar og bakað í vatnsbaði í ofni við 175 gráður þangað til þetta er orðið stinnt.
Látið kólna. Perlusykri stráð yfir og brennt með gasbrennara.

Þetta er alvöru Créme brulée.

Verði ykkur að góðu

Sesamkjúklingur

Kjúklingabringur (ein á mann)
Hunang
Sesamfræ
Salt og pipar
Bökunarkartöflur (eina á mann)
Ferskur graslaukur
Hvítlaukur

Sesamfræin eru ristuð á sjóðheitri pönnu þangað til þau varða gullinbrún á litinn. Þá er hunanginu bætt út í ásamt söxuðum graslauk og hvítlauk og látið malla saman örstutt. Kjúklingabringurnar kryddaðar með salti og pipar. Síðan er þeim velt upp úr hunagsblöndunni og grillaðar 7-10 mínútur á hvorri hlið. Nauðsynlegt að fylgjast vel með grillinu því hunangið getur brunnið. Gott að skilja eftir af blöndunni og smyrja aftur yfir bitana eftir grillunina.

Grænmetisblandan samanstendur af: Sætum kartöflum, kúrbít, rauðri papriku, rauðlauk, hvítvínsedik og smá sykur (ein msk)
Þetta er sett á pönnu með ólífuolíu og gljáð þangað til meyrnar.

Verði ykkur að góðu.

laugardagur, október 15, 2005

Íslensk kjötsúpa

Hver kann ekki að meta góða kjötsúpu?
Kjötsúpa er hin eina sanna íslenska súpa en það þýðir ekki að allar uppskriftirnar séu eins.

Þessi súpa er hálftær en oft eru höfð grjón í henni og þá verður hún þykkari. Mæli með að nota grjónin með.

1 kg súpukjöt
1,8 l vatn
1 msk salt, eða eftir smekk (ég nota meira)
1-2 msk súpujurtir
1/2 -1 laukur, saxaður smátt (meira en minna að mínum smekk)
500 g gulrófur
500 g kartöflur
250 g gulrætur
100 g hvítkál (má sleppa)
nýmalaður pipar
Svo nota ég nokkra súputeninga með.

Kjötið e.t.v. fituhreinsað að hluta og síðan sett í pott, vatninu hellt yfir og hitað að suðu. Froða fleytt ofan af, saltað og súpujurtum og lauk hrært saman við. Soðið í um 40 mínútur. Á meðan eru gulrófurnar afhýddar og skornar í bita, kartöflurnar afhýddar og skornar í helminga eða fjórðunga, ef þær eru stórar, og gulræturnar skafnar og skornar í bita. Sett út í og soðið í 15 mínútur til viðbótar. Kálið skorið í mjóar ræmur, sett út í og soðið í um 5 mínútur, eða þar til allt grænmetið er meyrt. Smakkað og bragðbætt með salti og pipar, ef þarf. Kjötið er ýmist borið fram í súpunni eða með henni á sérstöku fati.Ýmislegt annað grænmeti má hafa í súpuna, svo sem grænkál, næpur og jafnvel njóla. Einnig má sjóða hafragrjón eða hrísgrjón í súpunni. Oft er grænmetið haft í stærri bitum en hér er gert, og soðið lengur en margir fella sig illa við bragðið af gulrófnasoðinu og því er e.t.v. best að sjóða rófurnar sér í potti og jafnvel kálið einnig. Ég kann vel við rófubragðið svo ég sýð rófurnar með.
Svo eins og allir vita er hún enn betri upphituð.

Njótið vel.

þriðjudagur, september 06, 2005

Jahjarna.........!

Það hafa alltaf verið til matvinnsluvélar í eldhúsum. Hér áður fyrr kölluðum við þær bara; mamma!
Sue Berkman

Roð.... namm

Ekki henda roðinu. Ef þú ert einn þeirra sem kaupir hertan steinbít og hendir roðinu, þá vil ég benda þér á snilldar aðferð. Klipptu það í litla búta og stingdu því í örbylgjuofninn. Eftir ca. mínútu er það búið að rúllast upp og orðið stökkt.
Þannig bragðast það alveg með ólíkindum vel - með smjöri.

mánudagur, september 05, 2005

Silungur a-la ég

Silungur er ekki bara soðning eins og ég hélt einu sinni. Silungur og þá helst sjógenginn er eitthvað besta hráefni í sælkeraveislu sem völ er á.
Þessi uppskrift er ekki flókin enda hráefnið sem gerir gæfumuninn.
Fiskurinn er flakaður og beingarðurinn fjarlægður (gott að gera það með töng). Hvítlaukur pressaður út í ólífuolíu (magn eftir smekk) flökin lögð í grillgrind og penslað með hvítlauknum yfir. Kryddað með ferskri smáttsaxaðri steinselju og fersku garðablóðbergi og niðurskornum skallott lauk, vel af öllu þessu. Maldon salti stráð yfir og að lokum "fiskkrydda" kryddi frá knorr. Ofan á flökin er síðan raðað niðurskornum rauðum paprikum
Þetta er svo reykgrillað þ.e. bleyttir Hickory spænir eru settir í litlar álpappírskúlur og lagðir undir grindina á grillinu. Þegar byrjar að rjúka úr grillinu eru flökin sett á brennheitt grillið sem er þá stillt á hálfan hita og lokað. Grilltími er stuttur ca. 2-4 mínútur á hvorri hlið (fer eftir stærð), alls ekki má grilla of lengi, þá er allt ónýtt.
Sósan er líka einföld. Hvítlauksostur eða piparostur er rifinn niður og soðinn upp í rjóma þangað til það fer að þykkna.
Svo er nauðsynlegt að hafa með þessu grænmeti, nýtt og ferskt, má blanda á ýmsan veg og setja fetaost útí.
Nýjar kartöflur setja svo punktinn yfir i-ið.
Njótið vel

Meiri gikkurinn.

Ég mun aldrei borða ostrur. Ég vil að maturinn minn sé dauður - ekki veikur, ekki særður - dauður.
Woody Allen

föstudagur, maí 27, 2005

Silungur

Bleikjutartar
Bleikjuflak/flök (eða annar silungur), Shallotlaukur, Kapers, Salt/pipar, góð Ólífuolía græn

Allt skorið fínt og blandað saman. Rétt áður en á að borða er safi úr lime kreist yfir, brauði hent í ristina og hvítvínið opnað.

Þetta er nokkurskonar Sushi uppskrift, ekki ólíkt því sem ég hafði í afmælinu okkar Erlu síðast.
Ekkert er eldað, en lime safinn er nokkurskonar eldun því hann gerir fiskinn líkan og soðinn án þess að hafa áhrif á bragðið.

Listagott.

laugardagur, apríl 02, 2005

Kóngamatur

Lærði þetta af mömmu.Henni gekk víst ekkert of vel að koma ofaní okkur fiski svo hún matreiddi hann svona og kallaði hann kóngamat. Þetta var ótrúlega gott fannst manni og ekki spillti nafnið.
Fiskur er hakkaður nýr eða afgangur frá deginum áður. Líka er hakkaður laukur, einn laukur á móti hálfu kílói af fiski. Hrært saman í hrærivél ásamt eggjum, þrjú egg á hálft kíló. Hálfur bolli af haframjöli og hálfur bolli af hveiti (má auka við hveitið til að þykkja) Þetta er svo kryddað með salti, fiskikryddi, þriðja kryddi, og smá pipar.Úr þessu verður gulleit blanda sem er steikt í þunnum sneiðum í smjörlíki. Þetta þarf að steikjast nokkuð vel eða þar til þetta verður gullinbrúnt á litinn með stökkri skorpu.Berist svo farm með soðnum kartöflum og sméri ásamt kokkteilsósu.
Þetta bragðast ótrúlega vel.
Verði ykkur að góðu sem prófið.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Ný krækja...

Hún Gerða systir mín sendi mér slóð á alveg hreint frábærar uppskriftir. http://www.bloggland.is/blogg/24627/vefbok/1 Takk fyrir það Gerða mín. Ég renndi aðeins yfir þetta og sá að þarna eru margar meiriháttar aðferðir við matreiðslu.
Þið ættuð endilega að kíkja þarna inn og prófa eitthvað sem þarna finnst.

Verði ykkur að góðu.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Besti forréttur á jarðríki....

Segir Stefán Jón Hafstein..
Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, en í mínum eyrum hljómar þetta eins og fegurstu tónar. Ég á eftir að prófa þetta, með vorinu, eða um leið og ég stend með hann nýveiddan í höndunum.

Og þá er það uppskriftin. Hún er eiginlega engin uppskrift, heldur ,,and-uppskrift". Hér er nefnilega lagt til að fiskurinn sé EKKI eldaður. Tekin er nýveiddur laxfiskur. Borðaður hrár. Hann má ekki vera of nýveiddur, því eftir að bráðin hefur verið aflífuð verður hún að taka sig í ca 8 tíma, en auðvitað í kæli. Búðarfiskur er tilbúinn.
Flakið. Skerið hold í ræmur, svo sem fingurþykka bita. Auðvelt er að skera þunnar ræmur af holdi fisksins þar sem flakið liggur með roðið niður.
Leggið fallega á disk. Nú vantar lítið. Kikkoman sojasósa er góð með. Sumir þurfa ekkert meira. Hellið slatta af sósunni á diskinn við hlið fiskbitanna, eða hafið sósuna í hliðarskál.
Til að gera þetta að öruggum veislumat má kaupa hráan engifer í dós og hafa með (þunnar bleikar sneiðar í litlum krúsum í góðum mörkuðum). 3-4 slíkar á diskinn hjálpa mikið.
Og þá er aðeins eitt eftir: japönsk piparrót.... Hægt er að kaupa duft í litlum krúsum sem er hrært varlega saman við vatn. Þetta heitir Wasabee. Þetta er gríðarsterkt á bragðið svo flestum nægir að hræra saman vatn og eina teskeið af dufti á mann. (Ég Erling mun hafa þetta í miklu hófi)
Nú er hægt að slá upp mikilli veislu sem aldrei klikkar: Hrár lax eða silungur, engifer, piparrót á japanska vísu (Wasabee) og soja.

Góða skemmtun!

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Kartöflur.....

Ef þú ert sein(n) með kartöflurnar er gott ráð að nota örbylgjuna. Þá læturðu kartöflurnar í poka og pikkar lítil göt á pokann. Þessu stingurðu í örbylgjuna og stillir tímann á jafnmargar mínútur og kartöflurnar eru margar 5 kartöflur = 5 mín.

Einfalt og fljótlegt.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Beikon

Ert þú einn þeirra sem steikir beikon? Þá þekkirðu hvað mikil lykt og bræla kemur í húsið sem getur tekið góða stund að hverfa. Til að steikja beikonið fljótt og nánast lyktarlaust notarðu örbylgjuofninn. Þú einfaldlega leggur eldhúsbréf á disk og raðar beikonsneiðunum á það og aðra örk yfir og setur síðan í örbylgjuna í 2 – 3 mínútur eftir styrkleika ofnsins.
Engin bræla og beikonið verður stökkt og gott....

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Heimsklassi

Það var haldin heimsmeistarakeppni matreiðslumanna í Perlunni fyrir tveimur árum. Í framhaldinu staldraði sá sem vann keppnina við á Argentínu steikhúsi á Barónsstíg og kokkaði þar dýrindis máltíðir. Við hjónin fórum og fengum að smakka á þessum snilldarréttum hans.
Við fengum forrétt sem heillaði mig algerlega. Ég reyndi að pikka upp hvað þetta væri og hef í tvígang haft svona á borðum hjá okkur.

Það sem þarf í þetta er:

Nokkrar risahörpuskeljar, eftir fjölda (3 á mann)
Rauðbeður
Hvítlaukur
Vanillukrem
Paprika
Salatblöð

Að morgni veisludags þarf að leggja hörpudiskinn í hvítlauk (mikinn) og láta hann liggja allan daginn í honum.
Rauðrófur (stórar sneiðar) jafnmargar fisknum eru látnar liggja yfir daginn í lögg af Grand Mariner líkjör.
Þegar líður að eldamennsku þá er fyrst að blanda saman hunangi og Grand Mariner og steikja rauðrófurnar uppúr blöndunni á pönnu.
Síðan er soðið sem verður á pönnunni þykkt með maís sósuþykki (úr verður rauðleit sósa).
Hörpudiskurinn er svo snöggsteiktur upp úr smjöri með hvítlauknum.

Þessu er raðað á heitan disk þannig að einn fiskur fer ofan á hverja rauðrófu. Sósan sett yfir og til hliðar. Vanillukremið (kalt) til hliðar og sneydd paprika og salatblað með.

Verði ykkur að góðu.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Þjóðráð

Að saxa niður sveppi er auðvelt með því að nota eggjaskerann. Þú lætur stöngulinn snúa upp, ýtir saman og....... barbabrella, allur sveppurinn kominn í passlegar sneiðar.
nó prób.

Hálfgert Mousaka

Saxaðu niður grænmeti. T.d. slatta af hvítkáli, blómkáli, papriku, sveppum, einn lauk og hálfan til heilan hvítlauk (ég er ekki að tala um hvítlauksrif heldur laukinn allan, fer eftir hvítlaukssmekk, spara hann ekki sjálfur). Kryddaðu þetta aðeins með salti og pipar. Settu þetta á heita pönnu með ólífuolíu. Steiktu í svona 5 mínútur. Taktu þetta þá frá í bili. Steiktu síðan 4-5 egg og taktu þau líka frá. Steiktu síðan nautahakk 0.5 – 1 kíló eftir fjölda. Kryddaðu hakkið með salti og piparblöndu eða svörtum pipar (hakkið þarf að smakka til).

Þegar hakkið er steikt raðarðu eggjunum yfir það á pönnunni og hellir síðan grænmetisblöndunni þar ofan á. Síðan hellirðu hálfum til einum pela af rjóma yfir og þekur með osti.
Þetta þarf síðan að malla í nokkrar mínútur með lokinu á eða þangað til osturinn hefur bráðnað ofaní.
Berist fram á pönnunni.

Þetta er fljótlegur og mjög bragðgóður hversdagsmatur.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Matur og vín - linkar

Það er auðvitað algjör óþarfi að vera alltaf að finna upp hjólið í öllum hlutum. Kunnátta og þekking er mjög aðgengileg í flestum hlutum í dag. Hér eru t.d linkar inná tvær góðar matreiðslusíður. (Verð að vísa beint inná þær til að gæta höfundarréttar :-) Mæli sérstaklega með "íslenskt nautakjöt" síðunni: http://www.kjot.is/Default.asp?Sid_Id=2151&tId=1&Tre_Rod=&qsr Þar er að finna allskonar fróðleik um nautakjöt og meðferð á því.
Kíkið þangað ef þið ætlið að gera ykkur dagamun og nautakjöt er á matseðlinum.


Svo er hér annar linkur http://www2.uppskriftir.is/wine.html?id=F92B6FF3015C74D500256D670080EE0A með allskyns uppskriftum m.a. umsagnir um hin ýmsu borðvín sem passa með misjöfnum mat. Fyrir ykkur sem viljið rauðvín með nautinu er þetta frábær staður til að lesa sér til um réttu tegundina hverju sinni.

Njótið vel

laugardagur, febrúar 05, 2005

Kanntu að skræla hvítlauk?

Gæti hljómað asnaleg spurning en.....
Staðreyndin er að hýðið er mjög fast við laukinn og erfitt að skræla það af. Til að það gangi vel þá tekur maður hvítlauksrifið og kreistir það langsum þ.e. setur fingurnar á sitt hvorn endann og kreistir. Við það losnar hýðið frá lauknum og auðvelt verður að flysja það af..... Einfalt!

Web Counter
Free Web Site Counter