mánudagur, september 05, 2005

Silungur a-la ég

Silungur er ekki bara soðning eins og ég hélt einu sinni. Silungur og þá helst sjógenginn er eitthvað besta hráefni í sælkeraveislu sem völ er á.
Þessi uppskrift er ekki flókin enda hráefnið sem gerir gæfumuninn.
Fiskurinn er flakaður og beingarðurinn fjarlægður (gott að gera það með töng). Hvítlaukur pressaður út í ólífuolíu (magn eftir smekk) flökin lögð í grillgrind og penslað með hvítlauknum yfir. Kryddað með ferskri smáttsaxaðri steinselju og fersku garðablóðbergi og niðurskornum skallott lauk, vel af öllu þessu. Maldon salti stráð yfir og að lokum "fiskkrydda" kryddi frá knorr. Ofan á flökin er síðan raðað niðurskornum rauðum paprikum
Þetta er svo reykgrillað þ.e. bleyttir Hickory spænir eru settir í litlar álpappírskúlur og lagðir undir grindina á grillinu. Þegar byrjar að rjúka úr grillinu eru flökin sett á brennheitt grillið sem er þá stillt á hálfan hita og lokað. Grilltími er stuttur ca. 2-4 mínútur á hvorri hlið (fer eftir stærð), alls ekki má grilla of lengi, þá er allt ónýtt.
Sósan er líka einföld. Hvítlauksostur eða piparostur er rifinn niður og soðinn upp í rjóma þangað til það fer að þykkna.
Svo er nauðsynlegt að hafa með þessu grænmeti, nýtt og ferskt, má blanda á ýmsan veg og setja fetaost útí.
Nýjar kartöflur setja svo punktinn yfir i-ið.
Njótið vel

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Web Counter
Free Web Site Counter