Ég ætla að setja hér að gamni mínu nokkur grunn atriði (að mínum dómi) varðandi matargerð, áður en ég hendi uppskriftum hér inn. Ég er náttúrulega amatör í matreiðslu en áhuginn fleytir manni langt. Ég verð bara að treysta á að það rati engir úrvals kokkar hér inná síðuna og taki mig í nefið.
Hráefnið
Fyrsta og mikilvægasta atriðið trónir á toppnum.
Hráefnið verður að vera gott. Þú getur ekki gert góðan mat nema fylgja þessu einfalda ráði. Alveg sama hvort talað er um fisk, kjöt, grænmeti eða eitthvað annað þá er þetta algjört skilyrði fyrir góðri og velheppnaðri matreiðslu.
Kryddið
Krydd sem nota á má ekki vera of gamalt (bragðið versnar). Ef þú vilt virkilega gæla við bragðlaukana þá er best að nota ferskt krydd í gott hráefni (t.d er hvítlauksduft alls ekki það sama og ferskur hvítlaukur, gamall pipar er alls ekki sama og nýmalaður úr kvörn).
Olían
Olía sem notuð er við matreiðslu er mjög misgóð. Best er græn ólífuolía. Græn vegna þess að hún er úr fyrstu kreistingu ólífunnar og er því bragðmest og líka hollust. Gula olían er úr kreistingu númer tvö og er ekki eins góð. Þriðja kreistingin er svo notuð til iðnaðar t.d. sápugerðar.
Hitastigið
Lykilatriði við vel heppnaða steikingu er að hafa nógan hita (nema í þeim fáu tilfellum sem á að elda við vægan hita t.d smjörsteikingu) Ef pönnusteikt er við of lítinn hita gerist það að hráefnið soðnar en steikist ekki.
Þetta á ekki síst við um grillmat. Ég hita lokað grillið á fullu gasi í 5 mínútur áður en ég grilla. Það vinnst þrennt með því. Eldunin tekur styttri tíma, maturinn verður glóðarsteiktur en ekki soðinn og þú færð fallegar rendur eftir teinana á grillinu.
(á sérstaklega við um nautakjöt)
Tíminn
Enn eitt lykilatriði er að passa tímann vel. Of soðið eða of steikt er eyðilegging á mat. Mér sýnist þetta eiga við um allan mat. Hef reynslu af kjöti, fisk og grænmeti hvað þetta varðar.
Ég á eftir að bæta við þennan kafla þegar tími vinnst til en læt þetta nægja í bili.