laugardagur, október 15, 2005

Íslensk kjötsúpa

Hver kann ekki að meta góða kjötsúpu?
Kjötsúpa er hin eina sanna íslenska súpa en það þýðir ekki að allar uppskriftirnar séu eins.

Þessi súpa er hálftær en oft eru höfð grjón í henni og þá verður hún þykkari. Mæli með að nota grjónin með.

1 kg súpukjöt
1,8 l vatn
1 msk salt, eða eftir smekk (ég nota meira)
1-2 msk súpujurtir
1/2 -1 laukur, saxaður smátt (meira en minna að mínum smekk)
500 g gulrófur
500 g kartöflur
250 g gulrætur
100 g hvítkál (má sleppa)
nýmalaður pipar
Svo nota ég nokkra súputeninga með.

Kjötið e.t.v. fituhreinsað að hluta og síðan sett í pott, vatninu hellt yfir og hitað að suðu. Froða fleytt ofan af, saltað og súpujurtum og lauk hrært saman við. Soðið í um 40 mínútur. Á meðan eru gulrófurnar afhýddar og skornar í bita, kartöflurnar afhýddar og skornar í helminga eða fjórðunga, ef þær eru stórar, og gulræturnar skafnar og skornar í bita. Sett út í og soðið í 15 mínútur til viðbótar. Kálið skorið í mjóar ræmur, sett út í og soðið í um 5 mínútur, eða þar til allt grænmetið er meyrt. Smakkað og bragðbætt með salti og pipar, ef þarf. Kjötið er ýmist borið fram í súpunni eða með henni á sérstöku fati.Ýmislegt annað grænmeti má hafa í súpuna, svo sem grænkál, næpur og jafnvel njóla. Einnig má sjóða hafragrjón eða hrísgrjón í súpunni. Oft er grænmetið haft í stærri bitum en hér er gert, og soðið lengur en margir fella sig illa við bragðið af gulrófnasoðinu og því er e.t.v. best að sjóða rófurnar sér í potti og jafnvel kálið einnig. Ég kann vel við rófubragðið svo ég sýð rófurnar með.
Svo eins og allir vita er hún enn betri upphituð.

Njótið vel.

Web Counter
Free Web Site Counter